AXARVEGURINN.

Um Axarveg á Austurlandi
aka skaltu að sumarlagi,
hleypa traustum hjólagandi,
hvíla svo í lautardragi.

Hérna ruddu aldnir áar
okkar fyrsta steini úr vegi.
Leiðir virtust færar fáar,
fram þeir sóttu á nótt sem degi.

Tókst að gera troðning færan,
takmarki þeir náðu sínu.
Þeirra er sæmdin, þeirra er æran,
það skal geymt í minni þínu.

Bak við holt og hæðir gráar
hver má rata mjóa veginn
þar sem prúðar, berjabláar
brekkur rísa öllum megin.

Vagnabrekka varma sólar
vafin, blasir hér við sýnum,
hvergi á þokubólstrum bólar,
nú brosir Fellið hreinum línum.

Lengur mun ei léð að hvíla,
leggjum nú á ,,bremsufákinn”
Hér er ókeyrð erfið míla,
aðgæsluverð tæpa rákin.

Hérna stendur hættumerki
hættu þó að enginn greini.
Hér var notað vit í verki,
valin lega hverjum steini.

Vagnabrekkubraut við ókum,
brattinn virtist ekki saka,
eftir honum ekkert tókum,
enginn maður leit til baka.


Hænubrekka hátt þó standi
hana reynist létt að aka.
Nú er úti allur vandi
enda flestir lagið taka.

Háubrekku hratt við runnum,
hún er sneidd á besta máta.
Kjarkleysið við yfirunnum
þó ekki sé af miklu að státa.

Í Vínárnesi ögn við æjum,
þar eru Vínár báðum megin.
Mætti ské að margur gæinn
mundi verða sopa feginn.

Það er gott að Vínárvínið
veitir svala á hollan máta
en fyllir ekki fyllisvínið.
Fylliríið aungvir gráta.

Enn skal létt og áfram halda,
yfirgefa Vínárhylinn.
Mun ei þessi ás eða alda
ekki boða vatnaskilin?

Ásinn reyndist æði drjúgur,
um hann sneiddur vegur liggur.
Víða smáar vörðuhrúgur
og vonum fyrr sést Merkjahryggur.

- Hjálmar Guðmundsson