Jákvæð áhrif framkvæmda eru bættar samgöngur milli Egilsstaða og suðursvæðis Austurlands. Vegna betri vega og styttingar leiða með nýjum Axarvegi og nýjum Hringvegi í Skriðdal og um Berufjörð, styttist ferðatími milli svæða og öryggi í samgöngum eykst (teikning 2). Í stað núverandi Hringvegar um Skriðdal, sem er hlykkjóttur og mjór malarvegur, kemur vegur með bundnu slitlagi sem lagður verður í samræmi við gildandi öryggiskröfur Vegagerðarinnar. Í stað núverandi Axarvegar, sem er lélegur sumarvegur, þ.e. burðarlítill, mjór, hlykkjóttur, brattur, blindur, snjóþungur og hættulegur, með 4 einbreiðum brúm, kemur nýr heilsársvegur sem verður mun öruggari, liggur aðeins lægra í landi og er án einbreiðra brúa, mjög brattra brekkna eða krappra beygja (háð veglínu). Í stað malarvegar og einbreiðrar brúar í botni Berufjarðar kemur ný tvíbreið brú og vegur með bundnu slitlagi. Með tilkomu heilsársvegar um Öxi munu vegalengdir milli Egilsstaða og Djúpavogs styttast, sérstaklega að vetrarlagi (tafla 3.4.6.). Með nýjum Hringvegi um botn Berufjarðar munu vegalendir einnig styttast, háð leiðarvali (tafla 3.4.7.). Nú er unnið við endurbyggingu Hringvegar í Skriðdal, á kaflanum Skriðdalsvegur-Vatnsdalsá, og þar verður 0,46 km stytting. Auk þess verður 0,1 km stytting á Hringvegi, á kaflanum frá Skriðuvatni að Breiðdalsheiði, sem styttir Hringveg á kaflanum milli Egilsstaða og Breiðdalsvíkur.

 

Tekið úr matsskýrslu um Axarveg

3.4.3. Áhrif framkvæmda á samgöngur og umferðaröryggi

Framkvæmdir munu hafa áhrif á samgöngur, umferð og umferðaröryggi vegfarenda á Hringvegi um Skriðdal, Axarvegi og Hringvegi um botn Berufjarðar.

 

Helstu áhrifin verða:

    - Að loknum framkvæmdum verður komið samfellt bundið slitlag frá Egilsstöðum til Reykjavíkur að sunnaverðu. Malarvegurinn heyrir þá sögunni til.
    - Stytting leiða, einkum að vetrarlagi.
    - Minni hætta á að leiðin frá suðursvæði Austurlands til Egilsstaða lokist að vetrarlagi
    - Hagkvæmari og öruggari flutningsskilyrði á svæðinu
    - Betri vegir með hærri hámarkshraða og þar af leiðandi styttri ferðatími
    - Öruggari vegir með lægri slysatíðni
    - Þægilegri ferðamáti

Samkvæmt talningu Vegagerðarinnar er Öxi fjölfarnasta leiðin frá Djúpavogi til Norður- og Austurlands, þegar vegurinn er á annað borð fær. Þar sem Axarvegur hefur verið mikið notaður undanfarin ár, í því ástandi sem hann er í dag, er nokkuð víst að nýr og betri vegur mun auka nýtingu hans og tryggja enn frekar umferðaröryggi vegfarenda. Þegar vegalengdin milli Reykjavíkur og Egilsstaða (suðurleiðin) verður 61 kílómetrum styttri með tilkomu heilsársvegar um Öxi en norðurleiðin, mun það vafalítið auka ársdagsumferðina á suðurleiðinni á kostnað norðurleiðarinnar (Fljótsdalshérað, 2009).

 

Tekið upp úr matsskýrslu um Axarveg

Umferðaröryggi
Með nýjum Axarvegi og Hringvegi um Skriðdal og botn Berufjarðar er gert ráð fyrir að slysatíðni lækki. Allar veglínur uppfylla öryggisstaðla Vegagerðarinnar. Nýir vegir verða með góðum sjónlengdum og beygjur hvergi mjög krappar, nema á veglínu C. Vegfláar verða almennt fremur flatir, eða með hallann 1:3 - 1:4, en sett verða upp vegrið þar sem ekki verður komist hjá brattari fláum vegna landslags. Nýr Axarvegur mun liggja 10 m lægra yfir sjó en núverandi vegur, eða hæst í 522 m hæð y.s. Á núverandi Axarvegi eru brekkur með allt að 25% halla á stuttum kafla en brekkur verða hvergi brattari en 7,5% á nýjum vegi. Hæðarlega veganna verður betri og jafnari en á núverandi vegum, vegsýn meiri og umferðaröryggi eykst þar með. Öryggi vegfarenda eykst með betri legu vega og við styttingu leiða.
Með nýjum Axarvegi og Hringvegi um Skriðdal og botn Berufjarðar er gert ráð fyrir að slysatíðni lækki. Allar veglínur uppfylla öryggisstaðla Vegagerðarinnar. Nýir vegir verða með góðum sjónlengdum og beygjur hvergi mjög krappar, nema á veglínu C. Vegfláar verða almennt fremur flatir, eða með hallann 1:3 - 1:4, en sett verða upp vegrið þar sem ekki verður komist hjá brattari fláum vegna landslags. Nýr Axarvegur mun liggja 10 m lægra yfir sjó en núverandi vegur, eða hæst í 522 m hæð y.s. Á núverandi Axarvegi eru brekkur með allt að 25% halla á stuttum kafla en brekkur verða hvergi brattari en 7,5% á nýjum vegi. Hæðarlega veganna verður betri og jafnari en á núverandi vegum, vegsýn meiri og umferðaröryggi eykst þar með. Öryggi vegfarenda eykst með betri legu vega og við styttingu leiða.

 

Tekið úr Matsskýrslu