Áhrif á fyrirtæki

Fyrirtæki á Djúpavogi og Egilsstöðum munu eiga auðveldara með að veita þjónustu utan síns byggðarlags og sækja á ný markaðssvæði (Fljótsdalshérað, 2009). Möguleikar fyrirtækja á öllum sviðum munu batna og möguleikar á samstarfi munu aukast verulega. Ekki er talið að framboð á þjónustu í Djúpavogshreppi muni minnka því að á Djúpavogi verði eftir sem áður eftirspurn eftir allri helstu grunnþjónustu (Djúpavogshreppur, 2009b).

 

Atvinnusvæði mun stækka verulega með tilkomu framkvæmdanna og möguleiki skapast á að nálgast ný markaðssvæði fyrir ýmis fyrirtæki í þjónustu (Djúpavogshreppur, 2009b). Flest fyrirtæki munu því fagna þessum samgöngubótum. Fólk af suðurfjörðum sækir þegar mikla þjónustu til Egilsstaða en skv. könnun/skýrslu sem Bjarni Reynarsson hjá Landráði sf. vann fyrir Samgönguráðuneytið 2004-2006, sækir einnig nokkur fjöldi fólks frá Höfn í verslun og þjónustu á Egilsstöðum. Uppbyggður vegur um Öxi mun auðvelda aðgengi þeirra mjög mikið (Fljótsdalshérað, 2009). Framkvæmdin getur haft jákvæð áhrif á starfsemi flutningafyrirtækja á þessari leið.

 

Bættar samgöngur auka möguleika á samstarfi og sameiningu hjá fyrirtækjum á Fljótsdalshéraði og í Djúpavogshreppi. Sjávarútvegsfyrirtæki á Djúpavogi gætu betur nýtt sér markaðinn á Egilsstöðum og e.t.v. útflutning um Egilsstaðaflugvöll (Fljótsdalshérað, 2009). Mögulegt er að framkvæmdin geti haft neikvæð áhrif á þjónustuaðila á Breiðdalsvík vegna minni umferðar um Hringveg um Breiðdal.

 

Tekið úr matsskýrslu um Axarveg

3.5.3. Áhrif framkvæmda á samfélag

Áhrif á almenning

Á verktíma skapa framkvæmdirnar atvinnu á Austurlandi. Reikna má með að á framkvæmdatíma skapist 30-40 störf yfir sumarmánuðina í 3 til 5 ár en færri yfir vetrartímann (kafli 4.7.). Líklegt er að einhverjir heimamenn fái vinnu við framkvæmdir. Á framkvæmdatíma mun bygging Hringvegarins í Skriðdal og um Berufjörð trufla umferð þar sem núverandi vegi verður fylgt. Á meðan á framkvæmdum á Axarvegi stendur þarf að loka honum fyrir umferð almennings meðan unnið er við vegagerð í brekkunum í botni Berufjarðar. Búast má við einhverjum óþægindum hjá íbúum og landeigendum á framkvæmdatíma, óháð leiðarvali (kafli 4.9.).

 

Að loknum framkvæmdum dregur úr loftmengun og hávaða við íbúðarhús og frístundahús í grennd við vegina (kafli 6.2.). Öryggi íbúa að Berufirði batnar þegar Hringvegurinn liggur ekki lengur milli íbúðarhúsa. Samskipti geta aukist og einnig öryggi íbúa og vegfarenda varðandi heilbrigðisþjónustu og brunavarnir. Framkvæmdin mun hafa mest áhrif á íbúa Djúpavogshrepps. Samskipti milli íbúa sveitarfélaganna Fljótsdalshéraðs og Djúpavogshrepps munu stóraukast, sem og samskipti við önnur sveitarfélög á mið- og norðursvæði Austurlands (Djúpavogshreppur, 2009b).

 

Gera má ráð fyrir að almenningssamgöngur verði teknar upp með einhverju móti, m.a. með beinni tengingu við Egilsstaðaflugvöll. Bættar almenningssamgöngur munu auka samskipti Fljótsdalshéraðs við Djúpavogshrepp og nærliggjandi sveitarfélög (Fljótsdalshérað, 2009).

 

Með framkvæmdunum munu opnast nýir möguleikar á atvinnusókn milli Héraðs og Djúpavogshrepps. Um leið eykst fjölbreytni í atvinnu fyrir íbúa svæðisins. Ekkert verður því til fyrirstöðu að menn geti sótt daglega vinnu milli svæðanna (Djúpavogshreppur, 2009b).

 

Nú þegar er töluverð samvinna í íþróttum milli sveitarfélaga og nýr vegur mun tvímælalaust auka þá samvinnu. Einnig munu framkvæmdirnar styrkja menningarlífið báðum megin Axar og aukið samstarf í ferðaþjónustu og nýir möguleikar á því sviði munu opnast (Fljótsdalshérað, 2009).

 

Telja má að viðkomandi vegabætur muni auka öryggi íbúa á suðursvæði Austurlands, m.a. vegna öruggari samgangna að sjúkrastofnunum og Egilsstaðaflugvelli. Nýir vegir munu auka almenn lífsgæði hjá íbúum á svæðinu og gefa þeim aukna möguleika á samskiptum, bæði hvað varðar bein samskipti íbúa, en einnig er varðar atvinnulíf, menntun, menningarlíf og nýtingu íþróttamannvirkja.

 

Tekið úr matsskýrslu um Axarveg

Í tillögu að samgönguáætlun kemur fram að skapa þarf skilyrði fyrir flesta landsmenn að komast til og frá atvinnu- og þjónustukjarna á innan við einni klukkustund. Sú áhersla kallar á formlega skilgreiningu þessara kjarna svo hægt sé að vinna markvisst að þessu markmiði á áætlunartímabilinu. Í samræmi við Ísland 2020 er hafin vinna við sóknaráætlanir fyrir hvern landshluta sem tekur mið af svæðaskiptingu Sóknaráætlunar. Hluti af sóknaráætlun hvers landshluta er gerð svæðisskipulagsáætlunar og áætlunar um samgöngumiðstöðvar í hverjum landshluta og eflingu almenningssamgangna innan svæða út frá þeim. Samgönguyfirvöld munu taka virkan þátt í mótun sóknaráætlana í hverjum landshluta og að því loknu eiga formlegar skilgreiningar á atvinnu- og þjónustukjörnum að liggja fyrir. Þá munu samgönguyfirvöld taka þátt í mótun landsskipulagsstefnu, samræmdri stefnu ríkisins til tólf ára, sem umhverfisráðherra lætur vinna og leggur fyrir Alþingi samkvæmt skipulagslögum sem tóku gildi 1. janúar 2011. Í landsskipulagsstefnu eru samþættar áætlanir opinberra aðila um samgöngur, byggðamál, náttúruvernd, orkunýtingu og aðra málaflokka sem varða landnotkun og er hún útfærð með tilliti til skipulags landnotkunar með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.

 

Tekið úr Drögum að Samgönguáætlun 2011-2022