Áhrif á fyrirtæki

Fyrirtæki á Djúpavogi og Egilsstöðum munu eiga auðveldara með að veita þjónustu utan síns byggðarlags og sækja á ný markaðssvæði (Fljótsdalshérað, 2009). Möguleikar fyrirtækja á öllum sviðum munu batna og möguleikar á samstarfi munu aukast verulega. Ekki er talið að framboð á þjónustu í Djúpavogshreppi muni minnka því að á Djúpavogi verði eftir sem áður eftirspurn eftir allri helstu grunnþjónustu (Djúpavogshreppur, 2009b).

 

Atvinnusvæði mun stækka verulega með tilkomu framkvæmdanna og möguleiki skapast á að nálgast ný markaðssvæði fyrir ýmis fyrirtæki í þjónustu (Djúpavogshreppur, 2009b). Flest fyrirtæki munu því fagna þessum samgöngubótum. Fólk af suðurfjörðum sækir þegar mikla þjónustu til Egilsstaða en skv. könnun/skýrslu sem Bjarni Reynarsson hjá Landráði sf. vann fyrir Samgönguráðuneytið 2004-2006, sækir einnig nokkur fjöldi fólks frá Höfn í verslun og þjónustu á Egilsstöðum. Uppbyggður vegur um Öxi mun auðvelda aðgengi þeirra mjög mikið (Fljótsdalshérað, 2009). Framkvæmdin getur haft jákvæð áhrif á starfsemi flutningafyrirtækja á þessari leið.

 

Bættar samgöngur auka möguleika á samstarfi og sameiningu hjá fyrirtækjum á Fljótsdalshéraði og í Djúpavogshreppi. Sjávarútvegsfyrirtæki á Djúpavogi gætu betur nýtt sér markaðinn á Egilsstöðum og e.t.v. útflutning um Egilsstaðaflugvöll (Fljótsdalshérað, 2009). Mögulegt er að framkvæmdin geti haft neikvæð áhrif á þjónustuaðila á Breiðdalsvík vegna minni umferðar um Hringveg um Breiðdal.

 

Tekið úr matsskýrslu um Axarveg