3.5.3. Áhrif framkvæmda á samfélag

Áhrif á almenning

Á verktíma skapa framkvæmdirnar atvinnu á Austurlandi. Reikna má með að á framkvæmdatíma skapist 30-40 störf yfir sumarmánuðina í 3 til 5 ár en færri yfir vetrartímann (kafli 4.7.). Líklegt er að einhverjir heimamenn fái vinnu við framkvæmdir. Á framkvæmdatíma mun bygging Hringvegarins í Skriðdal og um Berufjörð trufla umferð þar sem núverandi vegi verður fylgt. Á meðan á framkvæmdum á Axarvegi stendur þarf að loka honum fyrir umferð almennings meðan unnið er við vegagerð í brekkunum í botni Berufjarðar. Búast má við einhverjum óþægindum hjá íbúum og landeigendum á framkvæmdatíma, óháð leiðarvali (kafli 4.9.).

 

Að loknum framkvæmdum dregur úr loftmengun og hávaða við íbúðarhús og frístundahús í grennd við vegina (kafli 6.2.). Öryggi íbúa að Berufirði batnar þegar Hringvegurinn liggur ekki lengur milli íbúðarhúsa. Samskipti geta aukist og einnig öryggi íbúa og vegfarenda varðandi heilbrigðisþjónustu og brunavarnir. Framkvæmdin mun hafa mest áhrif á íbúa Djúpavogshrepps. Samskipti milli íbúa sveitarfélaganna Fljótsdalshéraðs og Djúpavogshrepps munu stóraukast, sem og samskipti við önnur sveitarfélög á mið- og norðursvæði Austurlands (Djúpavogshreppur, 2009b).

 

Gera má ráð fyrir að almenningssamgöngur verði teknar upp með einhverju móti, m.a. með beinni tengingu við Egilsstaðaflugvöll. Bættar almenningssamgöngur munu auka samskipti Fljótsdalshéraðs við Djúpavogshrepp og nærliggjandi sveitarfélög (Fljótsdalshérað, 2009).

 

Með framkvæmdunum munu opnast nýir möguleikar á atvinnusókn milli Héraðs og Djúpavogshrepps. Um leið eykst fjölbreytni í atvinnu fyrir íbúa svæðisins. Ekkert verður því til fyrirstöðu að menn geti sótt daglega vinnu milli svæðanna (Djúpavogshreppur, 2009b).

 

Nú þegar er töluverð samvinna í íþróttum milli sveitarfélaga og nýr vegur mun tvímælalaust auka þá samvinnu. Einnig munu framkvæmdirnar styrkja menningarlífið báðum megin Axar og aukið samstarf í ferðaþjónustu og nýir möguleikar á því sviði munu opnast (Fljótsdalshérað, 2009).

 

Telja má að viðkomandi vegabætur muni auka öryggi íbúa á suðursvæði Austurlands, m.a. vegna öruggari samgangna að sjúkrastofnunum og Egilsstaðaflugvelli. Nýir vegir munu auka almenn lífsgæði hjá íbúum á svæðinu og gefa þeim aukna möguleika á samskiptum, bæði hvað varðar bein samskipti íbúa, en einnig er varðar atvinnulíf, menntun, menningarlíf og nýtingu íþróttamannvirkja.

 

Tekið úr matsskýrslu um Axarveg