Í tillögu að samgönguáætlun kemur fram að skapa þarf skilyrði fyrir flesta landsmenn að komast til og frá atvinnu- og þjónustukjarna á innan við einni klukkustund. Sú áhersla kallar á formlega skilgreiningu þessara kjarna svo hægt sé að vinna markvisst að þessu markmiði á áætlunartímabilinu. Í samræmi við Ísland 2020 er hafin vinna við sóknaráætlanir fyrir hvern landshluta sem tekur mið af svæðaskiptingu Sóknaráætlunar. Hluti af sóknaráætlun hvers landshluta er gerð svæðisskipulagsáætlunar og áætlunar um samgöngumiðstöðvar í hverjum landshluta og eflingu almenningssamgangna innan svæða út frá þeim. Samgönguyfirvöld munu taka virkan þátt í mótun sóknaráætlana í hverjum landshluta og að því loknu eiga formlegar skilgreiningar á atvinnu- og þjónustukjörnum að liggja fyrir. Þá munu samgönguyfirvöld taka þátt í mótun landsskipulagsstefnu, samræmdri stefnu ríkisins til tólf ára, sem umhverfisráðherra lætur vinna og leggur fyrir Alþingi samkvæmt skipulagslögum sem tóku gildi 1. janúar 2011. Í landsskipulagsstefnu eru samþættar áætlanir opinberra aðila um samgöngur, byggðamál, náttúruvernd, orkunýtingu og aðra málaflokka sem varða landnotkun og er hún útfærð með tilliti til skipulags landnotkunar með sjálfbæra þróun að leiðarljósi.

 

Tekið úr Drögum að Samgönguáætlun 2011-2022